Vinátta á vinnustað

„Hér deilum við sögu okkar og því hversu mikilvægt það er að rækta tengsl og vellíðan á vinnustöðum.“

Það er eitthvað svo frábært þegar vinátta myndast í vinnunni. Þegar samstarf byrjar sem faglegt en þróast með tímanum í trúnað, hlýju og samstöðu sem gerir það að verkum að hugmyndir fara að blómstra og ný tækifæri verða til. Þannig varð samstarf okkar stallanna til sem hefur núna orðið að sjálfstæðum rekstri undir heitinu Svalar.

Við stöllurnar hittumst fyrst í starfi á forvarnarsviði Virk. Þar tókum við að okkur verkefni sem við höfðum báðar mikinn áhuga á og settum fókusinn á streitu og kulnun sem þá var mikið í umræðunni. Í tengslum við það kynntumst við Streitustiganum sem dönsku sálfræðingarnir Marie Kingston og Malene Friis Andersen höfðu hannað. Það var ákveðinn vendipunktur og fengum við leyfi þeirra til að þýða og staðfæra efnið fyrir Virk og íslenskt samfélag. Virk stóð svo straum að útlitshönnun og birtingu Streitustigans á vefsíðunni Velvirk.is. Verkfæri Streitustigans eru fjölmörg og hafa reynst mörgum hagnýt í viðleitni þeirra við að ná tökum á streitunni.

Þetta verkefni markaði upphafið að þeirri vegferð sem við erum enn á – vegferð sem byggir á fagmennsku, traustu samstarfi og gagnkvæmri virðingu. Við höfum svo haldið áfram að þróa öflug námskeið sem styðja stjórnendur í að skapa vinnustaði þar sem vellíðan og seigla starfsfólks eru í fyrirrúmi. Frá upphafi Svalra höfum við verið svo lánsamar að fá tækifæri til að halda vinnustofur og námskeið fyrir mismunandi vinnustaði allt frá fyritækjum í áliðnaði til leikskóla. Þá höfum við einnig verið með nokkur vefnámskeið og fyrirlestra fyrir stjórnendur og starfsfólk um streitu og vellíðan á vinnustöðum.

Vinátta og samstarf á vinnustöðum

Reynslan af þessu starfi hefur skerpt hugmyndir okkar um mikilvægi þess sem rannsóknir sýna skýrt að vinátta og gott samstarf skipta sköpum á vinnustöðum.

Rannsóknir sýna að vinátta og góð samskipti á vinnustað hafa bein áhrif á bæði líðan og árangur. Samkvæmt Gallup (2019) eru starfsmenn sem segjast eiga „besta vin“ í vinnunni sjö sinnum líklegri til að vera meira tengdir starfi sínu og upplifa meiri starfsánægju. Slíkar tengingar stuðla jafnframt að meira trausti til vinnuveitanda og aukinni hollustu við vinnustaðinn.

Í norrænum rannsóknum á vinnuvernd og andlegri heilsu (t.d. Nielsen & Einarsen, 2018) kemur fram að starfsfólki sem finnst að það fái stuðning frá samstarfsfólki og stjórnendum er síður útsett fyrir kulnun og streitu. Þvert á móti eykst seigla, sköpunarkraftur og árangur þegar fólk finnur að það getur treyst á hvert annað.

Góð félagsleg tengsl hafa einnig verið tengd við betri líkamlega heilsu. Sálfræðingar eins og Christina Maslach sem hefur fjallað mikið um kulnun leggja áherslu á að hluti af forvörnum felst í því að byggja upp heilbrigð tengsl á vinnustað þar sem stuðningur, samvinna og virðing eru í fyrirrúmi.

Þegar vinátta og samstarf fara saman verður vinnustaðurinn ekki bara vettvangur verkefna heldur samfélag þar sem fólk blómstrar. Þetta er kjarninn í því sem við í Svalar viljum leggja áherslu á. Við viljum aðstoða stjórnendur við að laða fram það sem þarf til að starfsfólk nái að styrkja tengslin sem gera vinnuna ekki aðeins skilvirkari heldur líka innihaldsríkari og meira uppbyggjandi fyrir það sjálft sem aftur skilar sér í auknum árangri.

Stígum skrefin

Sagan okkar sýnir að þegar vinátta og traust eru grunnurinn þá verður samstarfið bæði skemmtilegra og árangursríkara. Við trúum því að allir vinnustaðir geti orðið að vettvangi þar sem fólk finnur fyrir öryggi, stuðningi og innblæstri.

Það krefst hins vegar þess að við þorum að stíga skrefin, þorum að rækta sambönd, sýna virðingu og opna dyrnar fyrir samvinnu sem getur vaxið í eitthvað óvænt og stórkostlegt.

Við vonum að okkar vegferð geti hvatt fleiri til að fylgja eigin sannfæringu, treysta á samstarf og skapa rými þar sem vellíðan fær að blómstra. Því í dagslok eru það ekki bara verkefnin sem skilja eftir sig spor heldur fólkið sem við vinnum með og vináttan sem mótar okkur til framtíðar.

Svalar = Ingibjörg og Líney

Byggt að hluta til á:

  • Gallup (2019). How a Best Friend at Work Changes Engagement in Higher Ed. Sótt af: gallup.com

  • Aliza Knox (2024). All Work And Some Play—Why Friends At Work Matter. Sótt af: Forbes.com

Previous
Previous

Mannauður mætur mætir

Next
Next

Fjarvinna eykur hamingjuna